Skip Navigation

Alvotech semur við Fuji Pharma um sölu líftæknilyfs í Japan

Business
10 April 2019

Alvotech, systurfyrirtæki Alvogen, hefur gert samkomulag við japanska lyfjafyrirtækið Fuji Pharma um sölu og markaðssetningu hliðstæðu-líftæknilyfsins Ustekinumab í Japan.

Frumlyfið Stelara® er í hópi söluhæstu lyfja heims í dag og selst fyrir um 5,2 milljarða bandaríkjadala á ári. Lyfið er meðal annars notað við meðferð Crohns sjúkdóms, psoriasis og psoriasis gigtar. Samningur við Fuji Pharma gefur fyrirtækinu aðgang að þróun og framleiðslu Alvotech en með samningnum tryggir Alvotech sér allt að 20 milljónir bandaríkjadala (um 2,4 milljarða króna) í áfangagreiðslur. Við undirritun samningsins greiðir Fuji Pharma jafnframt 4,6 milljónir bandaríkjadala (um 550 milljónir króna) til Alvotech. Heildarvirði samkomulagsins er því allt að þrír milljarðar króna. Lyfið verður markaðssett á öllum stærstu lyfjamörkuðum heims þegar einkaleyfi þess rennur út.

Í desember 2018 var tilkynnt um 50 milljóna bandaríkjadala fjárfestingu Fuji Pharma í Alvotech og samkomulag um þróun og framleiðslu hliðstæðulyfs Stelara® er liður í víðamiklu samstarfi fyrirtækjanna á næstu árum. Hlutafjárkaup Fuji Pharma miðaðist við um 150 milljarða króna virði Alvotech.

Líftæknilyf Alvotech fara á markaði um allan heim á næstu árum þegar einkaleyfi renna út. Fyrirtækið hefur gert fjölmarga samstarfssamninga undanfarin misseri um sölu og markaðssetningu lyfja Alvotech og verða þau seld á öllum helstu lyfjamörkuðum heims á næstu árum. Um 300 vísindamenn starfa nú hjá fyrirtækinu og þar af hafa 40 sérfræðinga verið ráðnir til starfa á þessu ári. Alvotech sérhæfir sig í þróun og framleiðslu hágæða líftæknilyfja sem notuð eru til meðferðar á erfiðum sjúkdómum eins og gigt, psoriasis og krabbameini.

Stærstu hluthafar Alvotech eru Aztiq Pharma AB, Alvogen og Fuji Pharma. Róbert Wessman, forstjóri Alvogen og stofnandi Alvotech, leiðir hóp fjárfesta í gegnum fjárfestingafélagið Aztiq AB, sem er meirihlutaeigandi í Alvotech. Stærstu eigendur Alvogen eru tveir af stærstu fjárfestingasjóðum í heiminum í dag, CVC Capital Partners og Temasek, ásamt Aztiq Pharma undir forrystu Róberts.

  • Alvotech tilkynnti nýlega um klínískar rannsóknir á sínu fyrsta lyfi. Um er að ræða líftæknilyfshliðstæðu lyfsins Humira sem er í dag söluhæsta lyf heims og selst fyrir um 20 milljarða Bandaríkjadala á ári (um 2.500 milljarðar króna). Lyfið hefur reynst árangursríkt við meðferð á ýmsum sjálfsofnæmissjúkdómum, eins og liðagigt og psoriasis. Um 400 þátttakendur taka þátt í rannsókninni, sem á sér stað á 30 stöðum vítt og breitt um Evrópu.
  • Alvotech tilkynnti í september um 22 milljarða samstarfssamning í Kína, þar sem fyrirtækið eignast helming í nýrri lyfjaverksmiðju sem verður reist þar í landi. Auk þess fær Alvotech beinan aðgang að næststærsta lyfjamarkaði heims.
  • Færustu vísindamenn landsins, auk erlendra sérfræðinga, hafa í sameiningu unnið að uppbyggingu hátækniseturs Alvotech í Vísindagörðum í Vatnsmýrinni og búið til þá þekkingu sem þarf til þróunar og framleiðslu líftæknilyfja. Á síðasta ári fékk Alvotech gæðavottun og framleiðsluleyfi frá Lyfjastofnun sem var mikilvægur áfangi fyrir fyrirtækið.
  • Ríflega 300 vísindamenn hafa verið ráðnir til Alvotech frá stofnun fyrirtækisins fyrir fimm árum. Á árinu 2018 voru ráðnir 60 vísindamenn sem vinna að því að þróa og framleiða hágæða líftæknilyf sem notuð eru til meðferðar á erfiðum sjúkdómum eins og gigt, psoriasis og krabbameini. Lyf fyrirtækisins eru væntanleg á alla stærstu lyfjamarkaði heims á árinu 2020 og síðar.