Fjölmiðlatorg

Alvotech gerir 22 milljarða króna samstarfssamning í Kína

Skrifað 27.9.2018 í: Alvogen IS

Lyfjafyrirtækið Alvotech hefur gert samstarfssamning við Changchun High & New Technology Industries um þróun, framleiðslu og markaðssetningu líftæknilyfja í Kína.

Ný lyfjaverksmiðja verður byggð í Changchun í Kína til að mæta þörfum þessa stóra markaðar fyrir lyf Alvotech sem eru mikilvæg til meðhöndlunar á ýmsum algengum og erfiðum sjúkrómum eins og gigt og krabbameini. 

Heildarvirði samningsins er um 22 milljarðar króna og eignast Alvotech helming í umræddri lyfjaverksmiðju og aðilar skipta með sér væntanlegri arðsemi af samstarfinu. Kínverskur lyfjamarkaður er í miklum vexti og er í dag næst stærsti markaður heims á eftir Bandaríkjunum. 

Færustu vísindamenn landsins, auk erlendra sérfræðinga hafa í sameiningu unnið að uppbyggingu hátækniseturs Alvotech í Vatnsmýrinni og búið til þá þekkingu sem þarf til þróunar og framleiðslu líftæknilyfja. Nýlega fékk Alvotech gæðavottun og framleiðsluleyfi frá Lyfjastofnun Íslands sem var mikilvægur áfangi fyrir fyrirtækið.

Róbert Wessman stofnandi Alvotech:

„Samstarfssamningurinn er mikilvægt skref í uppbyggingu Alvotech og tryggir okkur gott aðgengi að kínverskum lyfjamarkaði sem er í miklum vexti. Með samstarfinu verður til öflugt fyrirtæki í Kína sem nýtir þekkingargrunn Alvotech til framleiðslu á líftæknilyfjum. Samstarfssamningurinn ber vott um virði þeirrar nýsköpunar sem hefur átt sér stað innan Vísindagarða Háskóla Íslands á undanförnum árum.“

Rasmus Rojkjaer forstjóri Alvotech segir að ný verkmiðja verði ein sú tæknivæddasta á heimsvísu við framleiðslu líftæknilyfja.  Gæðakröfur í Kína eru að aukast og eftirspurn eftir hágæða lyfjum sömuleiðis.

„Hátæknisetur Alvotech á Íslandi mun áfram þjóna mikilvægu hlutverki þar sem hugvitssköpun fyrir alla markaði fyrirtækisins á sér stað hér á landi auk framleiðslu fyrir aðra markaði en Kína.

Um Alvotech

Innan hátækniseturs Alvotech er unnið að þróun sex líftæknilyfja (biosimilars) og stefnt er að því að hefja klínískar lyfjarannsóknir á næsta ári.  Lyfin eru markaðssett þegar einkaleyfi þeirra renna út en þá skapast umtalsverður sparnaður fyrir heilbrigðisyfirvöld um allan heim. Þá hafa rannsóknir sýnt að samhliða eykst aðgengi sjúklinga að umræddum lyfjum.

Núverandi söluverðmæti þeirra frumlyfja sem nú eru á markaði og Alvotech mun markaðssetja á heimsvísu er um 55 milljarðar bandaríkjadala á ári.  Alvotech stefnir að því að vera í hópi fyrstu fyrirtækja á markað með umrædd líftæknilyf þegar einkaleyfi þeirra renna út á næstu árum. 

Við notum vefkökur (e.Cookies) m.a. til að tryggja að vefsíðan okkar virki á réttan hátt og til að greina umferð um vefinn. Nánar um vefkökunotkun.