Skip Navigation

The Color Run og Alvogen styðja við bakið á börnum á Íslandi

Charity
13 May 2016
  • Hluti af þátttökugjöldum The Color Run renna til góðgerðarmála
  • 6 milljónum króna er úthlutað til íslenskra góðgerðarfélaga úr samfélagssjóði hlaupsins
  • Rauði krossinn og Reykjadalur njóta góðs af hlaupagleði Íslendinga

EFRI RÖÐ - RÓBERT WESSMANN, FORSTJÓRI ALVOGEN, HILDUR BJÖRK HILMARSDÓTTIR, SVIÐSSTJÓRI HJÁ RAUÐA KROSSINUM, NÍNA HELGADÓTTIR, VERKEFNASTJÓRI HJÁ RAUÐA KROSSINUM, HALLDÓR KRISTMANNSSON, FRAMKVÆMDASTJÓRI HJÁ ALVOGEN, NEÐRI RÖÐ - LINDA BJÖRK HILMARSDÓTTIR, SÖLUSTJÓRI THE COLOR RUN, KRISTÍN S. HJÁLMTÝSDÓTTIR, FRAMKVÆMDASTJÓRI RAUÐA KROSSINS OG MARGRÉT VALA MARTEINSDÓTTIR, FORSTÖÐUMAÐUR REYKJADALS

Samfélagssjóður The Color Run og lyfjafyrirtækisins Alvogen veitir tveimur íslenskum góðgerðarfélögum styrk í tengslum við litahlaupið sem haldið er í miðbæ Reykjavíkur þann 11. júní næstkomandi. Sex milljónum króna verður úthlutað til Rauða krossins og Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra vegna verkefna sem tengjast réttindum og velferð barna á Íslandi. Samfélagssjóðurinn var stofnaður á síðasta ári þegar The Color Run var haldið í fyrsta sinn hér á landi. Um tíu þúsund manns tóku þá þátt í viðburðinum en von er á enn fleiri þátttakendum á þessu ári og hefur fjárhæð styrksins verið hækkuð úr fimm í sex milljónir króna. UNICEF, Rauði krossinn og Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hlutu styrk á síðasta ári.

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra vinna nú að endurnýjun húsnæðisins í Reykjadal en árlega koma um 300 fötluð og langveik börn til sumar- og helgardvalar. Reykjadalur gefur börnum og ungmennum sem þurfa sérstaka þjónustu vegna fötlunar tækifæri til að komast í sumarbúðir líkt og stendur jafnöldrum þeirra til boða. Styrkurinn verður notaður í uppbyggingu á nýjum litagarði með litríkum leiktækjum í hjarta svæðisins.

Rauði krossinn hóf kynningarátak á síðasta ári gegn fordómum í íslensku samfélagi undir nafninu „Vertu næs“ og samfélagssjóður The Color Run og Alvogen hefur ákveðið að styðja áfram við þetta þarfa verkefni. Áfram verður unnið að vitundarvakningu um fjölmenningarsamfélag á Íslandi sem tekur á fordómum gagnvart uppruna fólks, kynþætti eða litarhafti.

Róbert Wessman forstjóri Alvogen segir ánægjulegt að geta haldið áfram að styðja við metnaðarfull verkefni sem tengjast réttindum og velferð barna.

„Það er gleðiefni að geta veitt sumarbúðunum í Reykjadal stuðning og efla þannig enn frekar gott starf sem þar hefur verið unnið. Samstarf okkar við Rauða krossinn hefur verið farsælt undanfarin ár og mikilvægt að samtökin geti haldið áfram að stuðla að umræðu og fræðslu um fordómalaust samfélag.“

Róbert Wessman

Forstjóri Alvogen

Davíð Lúther Sigurðarson framkvæmdastjóri The Color Run á Íslandisegir að það sé forsvarsmönnum litahlaupsins mikilvægt að láta gott af sér leiða til samfélagsins með þessum hætti.

„Þrátt fyrir að The Color Run sé ekki skilgreint sem góðgerðarhlaup þá lætur það samt gott af sér leiða. Okkur er sönn ánægja að styðja við svona flott málefni hér á landi.”