Skip Navigation

Stórtónleikar í Hörpu til styrktar Unicef

Charity
18 June 2014

Það verða sannkallaðir stórtónleikar í Silfurbergi fimmtudagskvöldið 3. júlí þegar hljómsveitirnar Hjaltalín og Kaleó og tónlistarmennirnir Páll Óskar og Snorri Helgason taka höndum saman og spila til stuðnings hjálparstarfi fyrir börn í Suður-Súdan. Hungur og sjúkdómar vofa yfir börnum þar og fleiri þúsundir munu láta lífið ef ekki er brugðist við í tíma.

Það verða sannkallaðir stórtónleikar í Silfurbergi fimmtudagskvöldið 3. júlí þegar hljómsveitirnar Hjaltalín og Kaleó og tónlistarmennirnir Páll Óskar og Snorri Helgason taka höndum saman og spila til stuðnings hjálparstarfi fyrir börn í Suður-Súdan. Hungur og sjúkdómar vofa yfir börnum þar og fleiri þúsundir munu láta lífið ef ekki er brugðist við í tíma.

Miðasala á tónleikana hefst föstudaginn 20. júní á miði.is og harpa.is og er miðaverð 4.500 krónur.

UNICEF hefur lýst yfir hæsta stigi neyðar í Suður-Súdan og nýlega hóf UNICEF á Íslandi neyðarsöfnun þar sem biðlað er til almennings og fyrirtækja á Íslandi að rétta börnum í Suður-Súdan hjálparhönd. Tónleikarnir eru liður í söfnuninni og mun hver einasta króna af miðasölu renna til UNICEF þökk sé stuðningi lyfjafyrirtækisins Alvogen sem stendur allan straum af kostnaði og sér auk þess um framkvæmd tónleikanna. Alvogen mun einnig styðja neyðarsöfnunina með beinum hætti auk þess sem starfsfólk fyrirtækisins leggur söfnuninni lið með ýmsu móti.

EKKI HÆGT AÐ SITJA HJÁ OG GERA EKKI NEITT

Hljómsveitirnar sem koma fram á styrktartónleikunum þarf vart að kynna. Hjaltalín hefur verið ein virtasta og vinsælasta hljómveit landsins frá því hún sló fyrst í gegn árið 2006. Plötur Páls Óskars hafa um langt árabil selst í bílförmum og troðfullt er á tónleika hans og dansleiki. Kaleó nýtur mikilla vinsælda í dag og er óumdeild spútnikhljómveit síðasta árs. Þá hefur Snorri Helgason, sem skaust upprunalega á stjörnuhimininn með hljómsveitinni Sprengjuhöllinni, unnið sér inn vinsældir á undanförnum árum með efni undir eigin nafni.

„Maður getur ekki setið hjá og gert ekki neitt. Þess vegna fagna ég því að fá að koma fram á þessum tónleikum og láta gott af mér og minni músík leiða,“ segir Sigríður Thorlacius söngkona Hjaltalín en meira en 50.000 börn í Suður-Súdan eru nú þegar lífshættulega vannærð og yfir 740.000 börn undir fimm ára aldri eru auk þess í hættu á að verða vannæringu að bráð. „Á bak við þessar skelfilegu tölur eru börn af holdi og blóði. Ég vona að við fyllum Silfurberg og getum fyrir vikið gert UNICEF kleift að koma sem flestum þeirra til bjargar,“ segir Sigríður.

Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi segist vera listafólkinu ótrúlega þakklátur fyrir að leggja þessu brýna málefni lið. Einnig vilji hann koma þakklæti á framfæri við aðstandendur Hörpu og og fleiri sem gera tónleikana að veruleika. „Það er mikilvægt að vekja athygli á þeim hræðilegu aðstæðum sem börn í Suður-Súdan búa við og afla fjár fyrir hjálparstarfinu,“ segir Stefán Ingi. „Við erum Alvogen einnig einstaklega þakklát fyrir þeirra veglega og óeigingjarna framlag. UNICEF treystir alfarið á frjáls framlög og þess vegna er þessi stuðningur svo gríðarlega mikilvægur.“

Sem fyrr segir hefst miðasala á tónleikana föstudaginn 20. júní á miði.is og harpa.is og er miðaverð 4.500 krónur. Þeir sem ekki komast á tónleikana geta styrkt söfnunina með því að senda SMS-ið BARN í númerið 1900 (1.900 krónur).

VERÐMÆTT SAMSTARF

Á sama tíma og tónleikarnir hefjast fer hjólamótið Alvogen Midnight Time Trial fram við Hörpu. Er það í annað skiptið sem þetta öfluga mót fer fram (sjá nánar hér). Mótið er einnig  söfnunarmót fyrir UNICEF og hjálparstarf samtakanna í Suður-Súdan.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Alvogen leggur UNICEF lið. Fyrirtækið hefur verið öflugur stuðningsaðili UNICEF frá árinu 2012 auk þess sem starfsmenn fyrirtækisins í yfir 30 löndum hafa styrkt UNICEF með framlögum sínum og söfnun í gegnum góðgerðarsjóðinn Better Planet. Með stuðningi Alvogen og starfsfólks hefur UNICEF meðal annars byggt fullbúin kennsluhús á Madagaskar sem er eitt fátækasta ríki heims. Þá styrkti Alvogen neyðaraðgerðir UNICEF á Sahel-svæðinu í Afríku sem taldar eru hafa bjargað lífi og heilsu mörg þúsund barna.

Alls stefnir Alvogen að því að um 12 milljónir króna renni til UNICEF vegna beinna framlaga, tónleikanna sjálfra og tímatökumóts Alvogen.