Skip Navigation

Leikur fyrir #öllbörn

Charity
11 June 2018

Í tilefni af því að karlalandslið Íslands tekur í fyrsta sinn þátt í heimsmeistaramótinu í fótbolta hefur lyfjafyrirtækið Alvogen ákveðið að styðja baráttu UNICEF á Íslandi með samstarfsverkefni sem sameinar leik og gleði fótboltans og réttindi barna til að stunda tómstundir og leika sér í öruggu umhverfi. Fyrirtækið hefur sett af stað áskorun undir yfirskriftinni Leikur fyrir #öllbörn. 

Alvogen heitir milljón á hvert mark Íslands á HM – Að lágmarki þrjár milljónir í barnvæn svæði UNICEF – UNICEF og Alvogen skora á fyrirtæki að leggja sitt af mörkum

Í tilefni af því að karlalandslið Íslands tekur í fyrsta sinn þátt í heimsmeistaramótinu í fótbolta hefur lyfjafyrirtækið Alvogen ákveðið að styðja baráttu UNICEF á Íslandi með samstarfsverkefni sem sameinar leik og gleði fótboltans og réttindi barna til að stunda tómstundir og leika sér í öruggu umhverfi. Fyrirtækið hefur sett af stað áskorun undir yfirskriftinni Leikur fyrir #öllbörn.

Alvogen hefur heitið einni milljón króna á hvert mark sem karlalandsliðið skorar á mótinu. UNICEF á Íslandi mun nýta áheitin til að útvega leikjakassa sem notaðir eru á barnvænum svæðum í flóttamannabúðum og á hamfarasvæðum víða um heim. Áður en flautað verður til leiks á laugardaginn hefur Alvogen heitið að lágmarki þremur milljónum krónum á landsliðið. Fyrir eina milljón er hægt að útvega 50 leikjakassa sem nýtast munu fyrir þúsundir barna

„Alvogen vill með þessu leggja sitt af mörkum við að tryggja að börn fái að vera börn. Öll börn eiga rétt á að þroskast og læra í gegnum leik og tómstundir og barnvænu svæðin eru mikilvægur staður þar sem börn geta fundið örygg og stuðning á erfiðum tímum“, segir Róbert Wessman, forstjóri Alvogen.

Leikjakassinn inniheldur fótbolta, ýmis leikföng, skólatöskur og námsgögn. Slíkir kassar eru notaðir á barnvænum svæðum UNICEF um allan heim, meðal annars í flóttamannabúðum fyrir Rohyngja í Bangladess, fyrir börn á flótta frá Sýrlandi og í Jemen. Á barnvænu svæðunum geta börn haldið menntun sinni áfram, leikið sér og fengið sálrænan stuðning til að vinna úr áföllum sínum.

Alvogen sendir áskorun á íslensk fyrirtæki

Alvogen ríður á vaðið með því að heita einni milljón á hvert mark landsliðsins á mótinu. Róbert Wessman skorar auk þess á önnur fyrirtæki að taka þátt og heita á mörk íslenska landsliðsins. „Fótboltinn sameinar heiminn í leik og gleði og við viljum nýta þennan kraft til að leggja okkar af mörkum við að gera heiminn betri fyrir börn. Við skorum á önnur fyrirtæki að ganga til liðs við okkur, boltinn er hjá ykkur,“ segir Róbert.

„Þetta samstarf mun hafa jákvæð áhrif á líf þúsunda barna og styðja við réttindi þeirra til að stunda íþróttir og tómstundir og gera þeim kleift að fá að vera börn. UNICEF vinnur að velferð og réttindum barna í öllum þeim löndum sem eiga fulltrúa á HM,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Alvogen hefur verið dyggur samstarfsaðili UNICEF á Íslandi í fjölda ára og meðal annars styrkt menntaverkefni á Madagaskar, neyðaraðgerðir UNICEF á Sahel svæðinu í Afríku og staðið fyrir styrktartónleikum fyrir börn í Nepal eftir mannskæðan jarðskjálfta þar í landi.