Skip Navigation

Lagnavinna Hátækniseturs verðlaunuð

Business
24 May 2017

Undanfarin ár hefur forseti Íslands afhent viðurkenningar Lagnafélags Íslands fyrir lofsverð lagnaverk, tilnefningar sem hafa verið hvatning fyrir starfandi lagnamenn til góðra verka. Hátæknisetur systurfyrirtækjanna Alvogen og Alvotech fær viðurkenningu félagsins að þessu sinni fyrir faglegan undirbúning, lagnir og háþróaðan búnað. Afhending viðurkenninga fór fram að Bessastöðum í gær við hátíðlega athöfn, í boði forseta Íslands herra Guðna Th. Jóhannessonar.

13,000 fermetra þróunarsetur líftæknilyfja

Skóflustunga að nýju hátæknisetri var tekin þann 6. nóvember 2013 eftir langan undirbúning. Til verksins voru kallaðir færustu sérfræðingar á sviði líftæknilyfja sem hönnuðu eitt fullkomnasta þróunarsetur sem reist hefur verið á þessu sviði á heimsvísu. Stórt og öflugt teymi innlendra og erlendra ráðgjafa unnu vel saman í undirbúningi og á framkvæmdatímanum. Hátæknisetrið er bæði flókið og afar háþróað mannvirki með rannsóknarstofum, skrifstofum og sérhæfðu framleiðslusvæði sem líkja má við skel utan um viðkvæman líkama þar sem líffæri með flókin hlutverk sinna hvert sínu verki. Þessum líkama er þjónað af æðakerfi sem flytur margar tegundir efna, allt frá fljótandi köfnunarefni í ryðfríum stálpípum í lofttæmdri umgjörð, yfir í heitt vatn og gufu við hátt hitastig.

Nú eru um ár liðið frá formlegri opnun hátæknisetursins og góð reynsla er komin á hönnun og framkvæmd hússins sem þykir vel heppnuð í alla staði. Þar starfa nú yfir 200 vísindamenn að þróun líftæknilyfja. Smíði og hönnun hússins er öllum sem að því komu til sóma en að baki verkinu liggur 20 ára reynsla og samstarf eigenda, ráðgjafa og iðnaðarmanna.Þeir einstaklingar sem nú fá viðurkenningu eru vel að því komnir enda miklir fagmenn á sínu sviði.

Við sendum heillaóskir til allra sem komu að undirbúningi og byggingu hátækniseturs Alvogen og Alvotech.