Skip Navigation

Konur leiðandi í alþjóðlegri uppbyggingu Alvogen og Alvotech

Business
08 March 2017

Systurfyrirtækin Alvogen og Alvotech héldu árlegan kynningarfund fyrir starfsfólk sitt í höfuðstöðvum fyrirtækjanna í Vatnsmýrinni í dag. Á fundinum var farið yfir framtíðarsýn, áherslur og markmið komandi árs þar sem Róbert Wessman, forstjóri Alvogen og stofnandi Alvotech, flutti erindi ásamt Eef Schimmelpennink forstjóra Alvotech.

Þema fundarins var breytingastjórnun (“Be the Change”) sem var áskorun til starfsmanna að fyrirtækin verði leiðandi afl í þeim breytingum sem framundan eru í samheitalyfjageiranum. Á aðeins sjö árum hefur Alvogen tekist að skipa sér í fremstu röð fyrirtækja á sínu sviði í heiminum og Alvotech er framsækið líftæknifyrirtæki í örum vexti.

Í erindi Róberts Wessman kom fram að um 90% af hagnaði fyrirtækisins á síðasta ári kom frá mörkuðum sem stýrt er af konum. „Vöxtur okkar hefur verið ævintýri líkastur og það er áhugaverð staðreynd að konur stýra okkar stærstu markaðssvæðum og þær hafa allar verið farsælar í sínu starfi. Kynningarfundur með starfsmönnum okkar á Íslandi er mikilvægur liður í því að stilla saman strengi og tryggja eftirfylgni á áherslum og markmiðum samstæðunnar fyrir komandi ár,“ segir Róbert.

Á Íslandi starfa um 200 vísindamenn í Hátæknisetri systurfyrirtækjanna og þar af er um helmingur konur. „Við sjáum hlutdeild líftæknilyfja aukast á næstu árum og markmið okkar hjá Alvotech er að vera í fremstu röð. Vísindamenn og sérfræðingar á Íslandi koma frá 20 löndum og við erum ánægð með þá miklu fjölbreytni sem er innan fyrirtækisins,“ bætti Eef Schimmelpennink við.

Í tilefni af Alþjóðlega kvennadeginum í dag var efnt til pallborðsumræðu undir forrystu þeirra Eddu Hermannsdóttur og Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur sem nýverið gáfu út bókina Forystuþjóð. Fjörugar umræður sköpuðust um hlutverk og samvinnu kynjanna innan Alvogen og Alvotech.