Skip Navigation

Allir sem einn dagurinn

Charity
27 May 2016

Mikið var um að vera í Frostaskjólinu þegar knattspynuiðkendur í KR og fjölskyldur þeirra komu saman í blíðunni laugardaginn 21. maí sl. Tónlistin ómaði úr KR stúkunni og grillilminn lagði yfir Vestubæinn.

Tilefnið var Allir sem einn dagurinn – dagur þar sem KR-stelpur og KR-strákar sem æfa knattspyrnu, frá 8. flokki upp í meistaraflokk, komu saman með fjölskyldum sínum og vinum og fagna komandi tímabili með fræðslu, grilli, glensi og auðvitað knattspyrnu.

Dagskráin var fjölbreytt og gátu allir aldurshópar fundið eitthvað við sitt hæfi. Fullorðna fólkinu bauðst að hlýða á fyrirlestur Viðars Halldórssonar um mikilvægi þátttöku foreldra í íþróttum barna og voru bekkirnir þétt setnir af áhugasömum foreldrum. Ungu KR-ingunum stóð einnig til boða fræðsluerindi frá Viðari um þau fjölmörgu tækifæri sem knattspyrnan getur gefið ungu fólki í dag. 

Leikmenn meistarflokks karla og kvenna ásamt þjálfurum tóku á móti yngstu KR-ingunum á grassvæðinu. Saman skellti hópurinn sér í fjölbreyttar knattþrautir í sólinni undir dyggri stjórn, Bojana Besic, yfirþjálfara yngri flokka KR.

Deginum lauk svo með heimsókn Arons Einars Gunnarssonar fyrirliða íslenska landsliðsins í knattspyrnu þar sem hann sagði frá sínum ferli, svaraði spurningum iðkenda og já gaf eiginhandaáritanir og myndatökur.

Grillaðar voru 500 pylsur og svalar gefnir auk myndalegrar sumargjafar frá Alvogen. Ætla má að vel ríflega 500 manns hafi tekið þátt í deginum, foreldrar, iðkendur, systkini, starfsfólk og sjálfboðaliðar. Tilgangurinn er fyrst og fremst að efla KR-samfélagið, fá KR-hjartað til að slá í takt, styrkja tengslin milli foreldra, iðkenda og vina. Búa til vettvang þar sem yngri iðkendur fá tækifæri til kynnast og eiga samskipti við glæsilegar fyrirmyndir sínar í knattspyrnunni,  menn og konur sem lengra eru komnir í íþróttinni.

Það voru sælir KR-ingar sem fóru heim eftir velheppnaðan dag, fullir tilhlökkunar vegna komandi verkefna.