KALMENTE

Mómetason nefúði

Lausasölulyf til meðferðar við einkennum ofnæmiskvefs. Þegar mómetasón er úðað uppí nefið dregur það úr bólgu (þrota og ertingu í nefi), hnerra, kláða og stöðvar nefrennsli.

  • Nefúði við ofnæmiskvefi
  • Nóg einu sinni á sólarhring
  • 140 skammtar
  • Inniheldur mómetason

LESIÐ FYLGISEÐILINN FYRIR NOTKUN

Fylgiseðill

KAL.L.A.2020.0004.02

Útdráttur úr fylgiseðli

Kalmente 50 µg/skammt, nefúði, dreifa. 140 skammtar í úðaglasi.

Virkt efni: mómetasonfúróat. Ábendingar: Kalmente er notað við einkennum ofnæmiskvefs (einnig kallað árstíðabundið ofnæmiskvef) og stöðugs ofnæmiskvefs hjá 18 ára og eldri.

Skammtar og lyfjagjöf: Venjulegur skammtur er 2 úðar í hvora nös einu sinni á sólarhring. Þegar stjórn hefur náðst á einkennunum er ráðlagt að minnka skammtinn í 1 úða í hvora nös einu sinni á sólarhring. Ekki skal nota meira en ráðlagt er hér að framan. Hjá sumum sjúklingum dregur Kalmente úr einkennum 12 klukkustundum eftir fyrsta skammt. Hins vegar getur það tekið allt að tvo daga áður en fullum áhrifum meðferðarinnar er náð. Ef þú hefur áður fengið meðferð við frjókornaofnæmi gætir þú þurft að byrja nokkrum dögum áður en tímabilið hefst. Leitið til læknis ef sjúkdómseinkenni versna eða lagast ekki eftir notkun lyfsins í 14 daga samfellt. Ekki nota Kalmente í meira en 3 mánuði án þess að ráðfæra þig við lækni.

Frábendingar: Ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna. Kalmente á ekki að nota ef ómeðhöndluð, staðbundin sýking er í nefslímhúð, eins og herpessýking, einnig ef þú hefur nýlega gengist undir nefaðgerð eða ert með áverka í nefi. Ekki nota nefúðann nema sár séu gróin. 

Sérstök varnaðarorð: Ráðfærðu þig við lækni eða lyfjafræðing ef þú ert með  eða hefur verið með berkla, einhverja aðra sýkingu, ef þú tekur önnur lyf sem innihalda barkstera, annað hvort til inntöku eða til inndælingar, ef þú ert með slímseigjusjúkdóm (cystic fibrosis). Hafðu samband við lækninn ef ónæmiskerfi þitt er veikt og þú kemst í samband við einhvern með mislinga eða hlaupabólu, ef þú ert með sýkingu í hálsi eða nefi, ef þú notar lyfið í marga mánuði eða lengur, ef þú hefur stöðuga ertingu í nefi eða hálsi.  Þegar barksterar í nef eru notaðir í stórum skömmtum í langan tíma geta komið fram aukaverkanir vegna dreifingar lyfsins um allan líkamann.

Þungun og brjóstagjöf: Leitið ráða hjá lækni eða lyfjafræðingi áður en lyfið er notað. Engar eða takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um notkun mómetasonfúróats hjá þunguðum konum. Ekki er vitað hvort mómetasonfúróat berist í brjóstamjólk.

Áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla: Engin þekkt áhrif.

Algengar aukaverkanir: Höfuðverkur, hnerri, blóðnasir, særindi í nefi eða hálsi, sár í nefi, öndunarfærasýkingar.

Markaðsleyfishafi: Alvogen IPCo S. à. r. l. , 5 Rue Heienhaff, L-1736, Senningerberg, Lúxemborg. Dagsetning endurskoðunar textans: 24. júní 2016. Lesið fylgiseðilinn fyrir notkun.

Lesið vandlega upplýsingar á umbúðum og fylgiseðli fyrir notkun lyfsins. Leitið til læknis eða lyfjafræðings sé þörf á frekari upplýsingum um áhættu og aukaverkanir. Sjá nánari upplýsingar um lyfið á www.serlyfjaskra.is.