Fjölmiðlatorg

Starfsmaður Alvotech hlýtur hvatningar-verðlaun Rannís

Skrifað 2.12.2015

Forstöðumaður gæðarannsóknadeildar hjá Alvotech og prófessor við lyfjafræðideild Háskóla Íslands, dr. Sesselja Ómarsdóttir, hlaut á dögunum hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs sem afhent voru á sérstöku afmælisþingi Rannís fimmtudaginn 26. nóvember.

Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, afhendir Sesselju Ómarsdóttur og Agli Skúlasyni verðlaunin

Við úthlutun verðlaunanna er sérstaklega horft til námsferils viðkomandi vísindamanns, sjálfstæðis, frumleika og árangurs í vísindastörfum að loknu námi. Sérstakt tillit er tekið til brautryðjendastarfs í vísindum.

Náms- og starfsferill Sesselju er aðdáunarverður. Sesselja vann  meistaraverkefni sitt að hluta við danska Lyfjafræðiháskólann í Kaupmannahöfn og fékk fyrir það hæstu einkunn sem gefin er. Hún varði doktorsritgerð sína frá Háskóla Íslands vorið 2006 á sviði lyfja- og efnafræði náttúruefna. Doktorsverkefni Sesselju fjallaði um fjölsykrur úr íslenskum fléttum, efnabyggingar og áhrif á ónæmiskerfi mannsins.

Þá hrinti Sesselja af stað rannsóknum á efnaauðlindum íslenskra sjávarlífvera í góðu samstarfi við vísindamenn bæði hérlendis og í Bandaríkjunum. Verkefnið er mikilvægt framlag til þeirrar viðleitni að afla nauðsynlegrar þekkingar um auðlindir Íslands svo unnt sé að skapa úr þeim verðmæti.

Um verðlaunin sagði Sesselja:

Þetta er mikil viðurkenning og hvatning fyrir áframhaldandi störf. Ég bind miklar vonir við að aukin áhersla verði lögð á að styrkja unga vísindamenn og nýliðun hér á landi.

Sesselja hóf störf hjá Alvotech síðastliðið sumar og gegnir þar stöðu forstöðumanns gæðarannsókna (QC), en um þessar mundir er vinna við uppsetningu rannsóknastofa og efnagreiningaraðferða komin á skrið í nýju hátæknsetri innan Vísindagarða Háskóla Íslands. Á næstu misserum mun Alvotech hefja samstarf við HÍ á sviði lífvísinda en nú starfa um 80 innlendir og erlendir sérfræðingar hjá fyrirtækinu.