Fjölmiðlatorg

Litahlaupið enn litríkara

Skrifað 22.6.2016 í: Samfélag

Litahlaupið fór fram við frábærar aðstæður þann 11. júní síðastliðinn. Nýtt met var slegið í aðsókn en alls tóku 12.000 manns þátt í hlaupinu sem var enn litríkara en fyrr. Hlauparar á öllum aldri og af öllum stærðum og gerðum hlupu 5 kílómetra leið á milli litastöðva í miðbæ Reykjavíkur. Alvogen er aðal styrktaraðili hlaupsins en alls var 6 milljónum króna varið til góðgerðafélaga úr samfélagssjóði hlaupsins.

Litahlaupið er alþjóðlegt og hefur þann meginn tilgang að hvetja til heilbrigðs lífernis. Það var sett á laggirnar árið 2011 og haldið í fyrsta sinn í Phoenix, Arizona.

Hlaupið fer fram í yfir þrjátíu löndum víðs vegar um heiminn um þessar mundir en þetta var í annað sinn sem það var haldið á Íslandi. Þema ársins var Tropicolor en það má með sanni segja að litir hitabeltisins hafi lífgað upp á íslenskan hversdagsleika eins og þessar myndir hér að neðan bera með sér. Guli liturinn er þó alltaf í sérstöku uppáhaldi hjá okkur í Alvogen.