Fjölmiðlatorg

Hátæknisetur Alvotech fær framleiðsluleyfi

Skrifað 25.9.2018 í: Alvogen IS
  • Mikilvægur áfangi í uppbyggingu fyrirtækisins
  • Yfir 200 vísindamenn starfa nú hjá fyrirtækinu

Lyfjafyrirtækið Alvotech hefur fengið gæðavottun og framleiðsluleyfi fyrir hátæknisetur fyrirtækisins á Íslandi.Á aðeins fimm árum hefur Alvotech vaxið í að verða stærsta líftæknifyrirtæki landsins með yfir 200 vísindamenn í vinnu sem vinna að þróun og framleiðslu líftæknilyfja sem eru mikilvæg til meðhöndlunar á ýmsum algengum og erfiðum sjúkdómum eins og gigt og krabbameini. 

Róbert Wessman stofnandi Alvotech segir það ánægjulegt að geta nú hafið framleiðslu líftæknilyfja og fljótlega hefjist klínískar lyfjarannsóknir á þeim lyfjum sem koma á markað á næstu árum.

„Uppbygging Alvotech hefur verið farsæl og framleiðsluleyfi Lyfjastofnunar er mikilvægur áfangi fyrir fyrirtækið sem getur nú haldið áfram undirbúningi að sölu og markaðssetningu líftæknilyfja um allan heim. Þróun og klínískar rannsóknir fyrir líftæknilyf er bæði flókið og tímafrekt ferli en það er gleðiefni að okkur hafi tekist að halda tímaáætlunum sem er mikilvægt,“ segir Róbert.

Framleiðsluleyfi Alvotech er veitt af Lyfjastofnun Íslands sem vann að úttekt á starfsemi fyrirtækisins í samstarfi við írsk lyfjayfirvöld á vormánuðum og nú liggur fyrir formlegt framleiðsluleyfi fyrirtækisins.

Um Alvotech
Innan hátækniseturs systurfyrirtækjanna Alvotech og Alvogen í Vatnsmýrinni starfa um 250 vísindamenn frá 20 þjóðernum. Höfuðstöðvar Alvotech eru á Íslandi en fyrirtækið hefur einnig starfsstöðvar í Sviss og Þýskalandi. Rasmus Rojkjaer er forstjóri Alvotech og leiðir öflugan hóp vísindamanna.

Alvotech hefur sex líftæknilyf í þróun og stefnt er að því að klínískar lyfjarannsóknir hefjist á næsta ári. Núverandi söluverðmæti þeirra frumlyfja sem nú eru á markaði og Alvotech mun markaðssetja á heimsvísu er um 55 milljarðar bandaríkjadala á ári. Alvotech stefnir að því að vera í hópi fyrstu fyrirtækja á markað með umrædd líftæknilyf þegar einkaleyfi þeirra renna út á næstu árum.

Þau líftæknilyf sem Alvotech er með í þróun eru gjarnan nefnd biosimilar lyf.  Þau eru markaðssett þegar einkaleyfi frumlyfja renna út og umtalsverður sparnaður skapast fyrir heilbrigðisyfirvöld um allan heim. Þá hafa rannsóknir sýnt að tilkoma biosimilar lyfja á markað verður til þess að fleiri sjúklingar fái meðferð við alvarlegum sjúkdómum.

Við notum vefkökur (e.Cookies) m.a. til að tryggja að vefsíðan okkar virki á réttan hátt og til að greina umferð um vefinn. Nánar um vefkökunotkun.