Fjölmiðlatorg

Dagur bleiku slaufunnar í Alvogen

Skrifað 16.10.2017 í: Samfélag

Bleiki dagurinn var haldinn hátíðlegur í Hátæknisetri Alvogen og Alvotech föstudaginn 13. október. En þennan dag hafa landsmenn verið hvattir til að sýna samstöðu og klæðast bleiku til áminningar um baráttuna gegn krabbameini hjá konum. Starfsmenn Alvogen og Alvotech létu ekki sitt eftir liggja og fjölmenntu í bleikustu fötum sem fundust í klæðaskápnum.

Boðið var upp á bleikan heilsudrykk í tilefni dagsins sem drukkinn var á meðan Sigrún Elva Einarsdóttir, fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélaginu, hélt upplýsandi fræðsluerindi um nauðsyn þess að sýna árverkni gagnvart þessum skæða sjúkdómi. Í erindi Sigrúnar kom fram að töluverður árangur hefur náðst í baráttunni við þennan illvíga sjúkdóm en aukningu hans má í senn rekja til neyslumynsturs okkar og þess að fleiri tilvik greinast eftir því sem þjóðin eldist.

Atburðinum lauk með því að Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, leysti Sigrúnu út með veglegum styrk til stuðnings því góða starfi sem Krabbameinsfélagið vinnur að og benti á að hluti þeirra lyfja sem eru í þróun hjá Alvotech eru sérhæfð krabbameinslyf sem verða aðgengileg sem samheitalyf þegar þau koma á markað á næstu árum.