Fjölmiðlatorg

Alvogen svarar neyðarkalli frá Nepal

Skrifað 28.4.2015 í: Alvogen IS

Alvogen hefur svarað neyðarkalli UNICEF og Rauða krossins sem óskað hafa eftir stuðningi vegna hamfaranna í Nepal. Fyrirtækið hefur ákveðið að boða til styrktartónleika í Hörpu þann 6. júní næstkomandi í samstarfi við UNICEF og Rauða krossinn en samtökin standa nú fyrir landssöfnun til styrktar þolendum jarðskjálftans mikla í Nepal.  Með beinu fjárframlagi Alvogen og styrktartónleikum er stefnt að því að 9 milljónir króna renni til söfnunar samtakanna.

Móðir hjúkrar slasaðri dóttur sinni eftir jarðskjálftann

Nokkrir af vinsælustu tónlistarmönnum á Íslandi í dag hafa ákveðið að leggja verkefninu lið. Retro Stefson, Amabadama og Ylja hafa nú þegar boðað komu sína og búist við að fleiri bætist í hópinn.   Stefnt er að því að selja 1.100 miða á tónleikana og safna þannig fimm milljónum króna. Miðasala mun hefjast á næstu dögum og starfsmenn Alvogen og Alvotech á Íslandi munu taka þátt í miðasölu. Eins verður leitað til samstarfsfyrirtækja um stuðning.

„Fréttir af hamförunum í Nepal hafa hreyft við öllum starfsmönnum Alvogen og við ákváðum að taka okkur saman og leggja þessu brýna verkefni lið.

Allir starfsmenn okkar á Íslandi munu aðstoða við miðasölu og framkvæmd tónleikanna og þekktir tónlistarmenn munu einnig taka þátt í þessu með okkur. Við berum mikið traust til UNICEF og Rauða krossins í þessu verkefni en við höfum átt í góðu samstarfi við samtökin á undanförnum árum í neyðarverkefnum,“ segir Róbert Wessman forstjóri Alvogen. 

Alvogen mun bera allan kostnað vegna tónleikanna þannig að aðgangseyrir renni óskertur til samtakanna vegna neyðaraðstoðar sem þau standa fyrir í kjölfar hamfaranna. Stefnt er að því að safna yfir fimm milljónum króna með tónleikunum sem renna óskert til UNICEF og Rauða krossins með stuðningi Alvogen. Andvirði miðasölu verður skipt jafnt á milli samtakanna. Jafnframt mun Alvogen leggja fjórar milljónir króna í beinum fjárstuðningi til UNICEF fyrir sama málefni sem greitt verður úr samfélagssjóði Alvogen, Better Planet, sem hefur það lykilmarkmið að standa vörð um réttindi og velferð barna.

 

Nánar um ástandið í Nepal:

  • Mikil neyð ríkir í Nepal í kjölfar ógnaröflugs jarðskjálfta sem reið yfir 25. apríl.
  • Sjö milljónir manna, þar af 2,8 milljónir barna þarfnast neyðaraðstoðar í kjölfar jarðskjálftans og talið að um ein milljón barna og fjölskyldur þeirra þurfi á brýnni neyðaraðstoð að halda.
  • Talið er að meira en 5000 manns hafi látist og óttast er að sú tala fari hækkandi þegar björgunaraðgerðir ná til afskekktari svæða. Mikil eyðilegging hefur orðið á byggingum og innviðum.
  • Lyfjafyrirtækið Alvogen stendur fyrir styrktartónleikum og greiðir allan kostnað vegna þeirra þannig að aðgangseyrir geti runnið beint til hjálparstarfs UNICEF og Rauða krossins.
  • Stefnt er að því að safna yfir fimm milljónum króna með miðasölu á tónleikana og er miðaverð 5.500 krónur.