Fjölmiðlatorg

Alvogen gefur íslensku þjóðinni 50 þúsund pakka af malaríulyfinu Chloroquine

Skrifað 31.3.2020 í: Alvogen IS

Alvogen ætlar að gefa Landspítalanum 50 þúsund pakka af malaríulyfinu Chloroquine sem dugar til meðhöndlunar á um 25 þúsund sjúklingum. Lyfið hefur verið notað í baráttunni gegn Covid-19 víða um heim með góðum árangri, svosem hérlendis, í Kína, Bandaríkjunum, Suður Kóreu og víðar.

Alvogen tókst að kaupa þetta magn af lyfinu hjá indverskum lyfjaframleiðanda en Indland er einmitt stærsti framleiðandi Chloroquine í heiminum í dag.

Daginn sem lyfið var tilbúið til afhendingar þann 24. mars s.l var sett á útgöngubann á Indlandi með fjögurra klukkustunda fyrirvara. Með aðstoð utanríkisráðuneytisins, íslenska sendiráðsins á Indlandi, indverska sendiráðsins á Íslandi og sendiherra er varan loksins komin í hendur flutningsaðila og á leið heim til Íslands. Áætlanir gera ráð fyrir að lyfið verði komi til landsins um næstu helgi.

Róbert Wessmann, forstjóri Alvogen, segist telja að eftirspurnin eftir lyfinu muni að öllum líkindum verða gríðarlega mikil á næstu vikum, þar sem notkun þess hafi lofað góðu í baráttunni gegn COVID-19. Við teljum það mjög mikilvægt að hafa náð að tryggja svona mikið magn af lyfinu, í ljósi þess að enginn veit nákvæmlega hversu erfitt það verður að nálgast lyfið og hversu lengi það ástand mun vara.

Malaríulyfið Chloroquine er gjöf til Íslensku þjóðarinnar frá Alvogen og við vonumst til að það muni reynast öflugt vopn í baráttunni gegn vírusnum hér á landi.