Fjölmiðlatorg

Allir sem einn dagurinn og Alvogen

Skrifað 29.5.2017 í: Samfélag

Allir sem einn dagurinn var haldinn hátíðlega í Frostaskjóli þann 20. maí síðastliðinn í blíðskaparveðri. Boðið var upp á knattþrautir sem þjálfarar yngri flokka og leikmenn meistarflokks KR sáu um, og er óhætt að segja að þeir hafi slegið í gegn.

Inni í íþróttasal talaði Willum Þór Þórsson, þjálfari meistarflokks karla, um mikilvægi liðsheildarinnar. Valgeir Viðarsson sjúkraþjálfari hélt svo erindi um fótboltameiðs og hvað hægt er að gera til þess að koma í veg fyrir slík meiðsli.


Þá var komið að Emmsjé Gauta, sem tryllti lýðinn með söng en lag hans „Reykjavík er okkar“ hefur að undanförnu heyrst í spilun á undan öllum heimaleikjum KR á Alvogen-vellinum. Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari kvenna leit svo við ásamt Fanndísi og Rakel landsliðskonum og sátu þau fyrir svörum. Alvogen bauð svo gestum upp á veitingar, en alls voru grillaðar um 600 pylsur yfir daginn. Þessum frábæra degi lauk svo á því að öllum var boðið á leik meistarflokks kvenna sem lék gegn Þór/KA.

Dagurinn var vel heppnaður og mikil ánægja ríkti meðal gesta, Alvogen lagði sitt af mörkum til að svo gæti orðið og er stoltur bakhjarl KR-inga.