Heilaþroski á meðgöngu

Heilaþroski á fósturstigi er mjög viðkvæmt ferli og það er svo sannarlega ótrúlegt að heilinn geti á örfáum mánuðum breyst úr nokkrum frumum í flóknasta fyrirbæri sem þekkist.

Taugakerfið er í byrjun aðeins lítil og flöt plata en stækkar hratt og tekur á sig flóknari mynd sem verður svo að heila, mænu og úttaugakerfi.

MIKILVÆGUSTU MÁNUÐIRNIR

Hver dagur meðgöngu er mikilvægur fyrir líffæraþroska og mörg veigamikil tímamót verða á fyrstu vikum meðgöngunnar.

Oft gera verðandi mæður sér ekki grein fyrir því að þær séu óléttar en þegar að því kemur hafa mörg líffæri jafnvel tekið á sig kunnuglega mynd.

Heilinn stækkar og þroskast í gegnum alla meðgönguna en breytist þónokkuð mikið á síðasta þriðjungi hennar. Þá stækkar heilinn mikið og skorurnar sem einkenna útlit hans svo vel myndast. Það er einmitt á þessum tíma, síðasta þriðjungi meðgöngu að framboð á DHA fitusýrum skiptir mestu máli. Þetta er vegna þess að DHA er byggingarefni í frumuhimnum, en heilinn samanstendur af 100 milljörðum frumna við fæðingu.

Ungur nemur - gamall temur

Við fæðingu hafa heilafrumur barnsins tekið á sig mynd, en frumurnar hafa þó ekki myndað mjög margar tengingar hverjar við aðra. Á næstu árum þar á eftir myndast billjónir (þúsundir milljarða) tenginga á milli heilafruma okkar sem einkenna okkur síðan hvert á sinn hátt sem vitsmunaverur.

Það er áhugavert að fjöldi tenginga í heila nær hámarki rétt fyrir eins árs aldur. Eftir það á sér stað eins konar grisjun, tengingum er fækkað en þær sem eftir sitja verða skilvirkari. Þetta er einmitt ein ástæða þess að börn eru svo móttækileg fyrir nýrri þekkingu og færni.

Á gelgjuskeiðinu hægist mjög á áðurnefndri grisjun, en þess vegna er svo mikilvægt að örva heilann vel og mikið áður en það gerist og heilinn hættir að geta myndað nýjar tengingar.