Fjölmiðlatorg

Vísindamenn styðja UN Women með mömmupökkum

Skrifað 21.11.2017

Forsvarsmenn UN Women á Íslandi heimsóttu vísindamenn systurfyrirtækjanna Alvogen og Alvotech í nóvember. Þær Stella Samúelsdóttur, framkvæmdastýra og Mörtu Goðadóttur, kynningarstýra kynntu samstarf samtakanna við Alvogen og sögðu frá ferð samtakanna til Za´atari flóttamannabúðanna.

Sendinefndin fékk tækifæri til þess að ræða við fjölmargar konur í flóttamannabúðunum sem sögðu sögu sína og frá þeim slæmu aðstæðum sem þær búa við. Um 80.000 manns frá Sýrlandi hafast við í flóttamannabúðunum við bágan kost en búðirnar eru þær næststærstu í heiminum.

Alvogen er bakhjarl UN Women og kostaði ferð samtakanna til búðanna og framleiðslukostnað við gerð myndbanda sem nýst hafa í söfnunarátaki UN Women á Íslandi.

Vísindamenn systurfyrirtækjanna Alvogen og Alvotech lögðu einnig sitt af mörkum og með þeim fjármunum sem söfnuðust innan fyrirtækisins voru keyptir yfir 200 mömmupakkar fyrir nýbakaðar mæður í Za´atari. Um 80 börn fæðast í hverri viku í flóttamannabúðunum og pakkarnir innihalda burðarrúm, hlý ungbarnaföt og ullarsjal fyrir nýbakaðar mæður.

Hildur Hörn Daðadóttir, starfsmannastjóri á Íslandi sagði ánægjulegt að fá tækifæri til að leggja þessu málefni lið.

„Starfsfólk okkar á Íslandi vildi líka leggja sitt af mörkum og í gegnum innri vef fyrirtækisins var tekið við frjálsum framlögum. Á aðeins tveimur dögum söfnuðust um 830 þúsund krónur sem nýtast til kaupa á yfir 200 mömmupökkum fyrir nýbakaðar mæður.“

We use cookies to ensure our website works properly and to collect statistics about users in order for us to improve the website. Learn more.